Histasín

Filmuhúðuð tafla | 10 mg

Íkomuleið:

Til inntöku

Flokkur:

Lyf fyrir menn

ATC-flokkur:

R06AE07 - Cetirizinum

Markaðsleyfishafi:

Teva B.V.

Umboðsmaður:

Teva Pharma Iceland ehf.

Heildsala:

Distica hf.

Upplýsingar um Histasín og við hverju það er notað

Virka efnið í Histasín er cetirizín tvíhýdróklóríð.

Histasín er ofnæmislyf.

Histasín er ætlað fullorðnum og börnum 6 ára og eldri við:

 • einkennum í nefi og augum vegna árstíðabundins eða stöðugs ofnæmiskvefs
 • langvinnum ofsakláða af óþekktum orsökum

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Histasín er notað

 • ef þú ert sjúklingur með skerta nýrnastarfsemi. Hafðu samráð við lækninn þinn sem metur hvort þú þarft að fá minni skammt
 • ef þú ert með þvagteppu
 • ef þú ert flogaveikisjúklingur eða átt á hættu að fá krampaflog. Fáðu ráðleggingar hjá lækninum þínum
 • ef þú þarft að fara í ofnæmishúðpróf þarft þú að hætta töku lyfsins þremur dögum áður. Láttu lækninn vita ef þú notar Histasín

Ekki hafa fundist neinar umtalsverðar milliverkanir milli áfengis og cetirizíns í ráðlögðum skömmtum (miðað við 0,5 prómill áfengismagn í blóði, samsvarandi einu glasi af víni). Hinsvegar er mælt með, eins og fyrir önnur andhistamín lyf, að forðast sé að neyta áfengis á sama tíma og lyfið er notað.

Ekki má nota Histasín

 • ef þú ert með alvarlegan nýrnasjúkdóm (alvarlega nýrnabilun með kreatínín úthreinsun minni en 10 ml/mín)
 • ef um er að ræða ofnæmi fyrir virka efninu eða fyrir hýdroxýzíni eða piperazín afleiðum (náskyld virk efni annarra lyfja) eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins

Notkun annarra lyfja samhliða Histasín

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð, einnig þau sem fengin eru án lyfseðils.

Út frá fyrirliggjandi þekkingu á cetirizíni er ekki búist við milliverkunum við önnur lyf.

Notkun Histasín með mat eða drykk

Fæðuneysla hefur ekki markverð áhrif á frásog cetirizíns.

Meðganga og brjóstagjöf

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Um Histasín gildir, eins og um önnur lyf, að ófrískar konur ættu að forðast notkun þess. Þótt ófrísk kona taki lyfið af slysni ætti það ekki að hafa áhrif á fóstrið. Engu að síður ætti að hætta töku lyfsins. Konur með börn á brjósti ættu ekki að taka Histasín þar sem cetirizín berst í brjóstamjólk.

Akstur og notkun véla

Klínískar rannsóknir hafa ekki sýnt fram á að Histasín í ráðlögðum skammti dragi úr eftirtekt, árvekni eða hæfni til að stjórna ökutæki.

Ef þú ætlar að aka, taka þátt í athöfnum sem geta verið hættulegar eða stjórna vélum ættir þú ekki að taka stærri skammta en mælt er með. Þú ættir einnig að fylgjast vel með eigin viðbrögðum við lyfinu. Hjá næmum einstaklingum getur samhliða notkun áfengis eða annarra efna, sem hafa slævandi áhrif á miðtaugakerfið, dregið meira úr eftirtekt og viðbragðsflýti en venjulega.

Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í öðrum köflum fylgiseðilsins. Lesið því allan fylgiseðilinn. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.

Histasín inniheldur mjólkursykur (laktósa)

Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn.

Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknis og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.

Hvernig nota á Histasín

Alltaf skal nota lyfið nákvæmlega eins og lýst er í fylgiseðli eða eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur mælt fyrir um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Gleypið töflurnar með glasi af vökva.

Ráðlagður skammtur

 • Fullorðnir og unglingar eldri en 12 ára: Ein 10 mg tafla á dag.
 • Börn 6 til 12 ára: Hálf tafla, 5 mg, tvisvar á dag.
 • Sjúklingar með meðal skerta til verulega skerta nýrnastarfsemi: Mælt er með 5 mg einu sinni á dag fyrir sjúklinga með meðal skerta nýrnastarfsemi.

Lengd meðferðar

Ef nauðsynlegt er að nota Histasín lengur en 14 daga á að hafa samband við lækni til að hægt sé að útiloka að sjúkdómseinkennin séu af alvarlegum toga.

Ef notaður er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið notaður eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222).

Eftir of stóran skammt geta aukaverkanir sem lýst er hér neðar komið sterkar fram. Aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um eru rugl, niðurgangur, sundl, þreyta, höfuðverkur, lasleiki, ljósopsstækkun, kláði, óróleiki, slævandi áhrif, syfja, hálfdvali, óeðlilega hraður hjartsláttur, skjálfti og þvagteppa.

Ef gleymist að nota Histasín

Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að nota.

Ef hætt er að nota Histasín

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

Fyrirvari

Hugsanlegar aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.

Fylgiseðillinn kann að hafa verið uppfærður eftir að upplýsingarnar að ofan voru teknar saman. Í þeim tilfellum sem upplýsingarnar stangast á skal fara eftir því sem fram kemur í fylgiseðli.

Pakkningar og verð