Virk innihaldsefni:

Íkomuleið:

Til inntöku

Flokkur:

Lyf fyrir menn

ATC-flokkur:

M01AE01 - Ibuprofenum

Markaðsleyfishafi:

Teva B.V.

Umboðsmaður:

Teva Pharma Iceland ehf.

Heildsala:

Distica hf.

Heimilt er að selja takmarkað magn lyfsins í lausasölu sbr. pakkningar merktar (L). Mest 50 stk. af 200 mg töflum eða 50 stk. af 400 mg töflum handa einstaklingi.

Upplýsingar um Íbúfen og við hverju það er notað

Íbúfen tilheyrir flokki lyfja sem kölluð eru NSAID-lyf (bólgueyðandi lyf sem ekki eru sterar) og draga úr verkjum, bólgum og hita.

Íbúfen 200 mg filmuhúðaðar töflur eru notaðar við vægum til meðal miklum verkjum eins og höfuðverk, einnig mígreni höfuðverk, tannpínu, tíðaverkjum og hita.

Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknis og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum áður en Íbúfen er notað

 • ef þú hefur rauða úlfa (SLE) eða aðra sjálfsnæmissjúkdóma
 • ef þú ert með arfgengan sjúkdóm sem hefur áhrif á blóðrauða, hemoglóbín (purpuraveiki)
 • ef þú ert með langvarandi bólgusjúkdóma í þörmum eins og bólgur í ristli með sárum (sáraristilbólgu), bólgur í meltingarvegi (Crohn´s sjúkdóm) eða aðra maga- eða þarmasjúkdóma
 • ef þú ert með truflanir á blóðfrumnamyndun
 • ef þú ert með vandamál tengd blóðstorknun
 • ef þú þjáist af ofnæmi, ofnæmiskvefi, astma, langvarandi bólgum í nefslímhúð, nefsepum eða langvarandi teppusjúkdómum í öndunarvegi, þar sem íbúprófen getur valdið þrengingum og öndunarerfiðleikum (berkjukrampa)
 • ef þú ert með skerta lifrar- eða nýrnastarfsemi
 • ef þú ert með hjartavandamál, þ.m.t. hjartabilun, hjartaöng (verk fyrir brjósti) eða háan blóðþrýsting eða ef þú hefur fengið hjartaáfall, farið í hjáveituaðgerð eða fengið heilablóðfall af einhverju tagi eða skammvinnt blóðþurrðarkast, eða ef þú ert með blóðrásarvandamál í slagæðum í hand- eða fótleggjum (útslagæðakvilli). Sjá kaflann „Áhrif á hjarta og heila“.
 • ef þú ert nýkominn úr meiriháttar skurðaðgerð
 • ef þú ert þunguð og á fyrstu 6 mánuðum meðgöngu
 • ef þú ert með barn á brjósti
 • ef þú ert með sýkingu (sjá kaflann „Sýkingar“).

Hægt er að lágmarka aukaverkanir með því að nota minnsta virka skammtinn í eins stuttan tíma og hægt er.

Ekki má nota Íbúfen

 • ef um er að ræða ofnæmi fyrir íbúprófeni eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins.
 • ef þú hefur fengið ofnæmisviðbrögð eins og astma, nefrennsli, útbrot með kláða eða ef varir, andlit, tunga eða háls hafa bólgnað upp eftir að þú hefur tekið lyf sem innihalda asetýlsalisýlsýru eða önnur bólgueyðandi verkjalyf (NSAID-lyf).
 • ef þú hefur þjáðst af sárum eða blæðingum í maga eða smáþörmum (skeifugörn) í tengslum við fyrri notkun bólgueyðandi verkjalyfja (NSAID-lyfja).
 • ef þú þjáist núna af sárum eða blæðingum í maga eða smáþörmum (skeifugörn) eða ef þú hefur áður þjáðst af slíku, tvisvar eða oftar.
 • ef þú ert með alvarleg lifrar-, nýrna-, eða hjartavandamál (kransæðasjúkdómar meðtaldir)
 • á síðasta þriðjungi meðgöngu
 • ef þú þjáist af umtalsverðum vökvaskorti (vegna uppkasta, niðurgangs eða of lítillar vökvaneyslu)
 • ef þú ert með einhverjar blæðingar (blæðingar í heila meðtaldar)
 • ef þú ert með sjúkdóm af óþekktum uppruna sem leiðir til óeðlilegrar myndunar blóðfrumna

Áhrif á meltingarfæri

Forðast skal samhliða notkun Íbúfens og annarra NSAID-lyfja, þ.m.t. cýklóoxýgenasa-2 sérhæfðra hemla.

Aldraðir

Aldraðir eru viðkvæmari fyrir aukaverkunum, sérstaklega blæðingum og rofi í meltingarvegi, sem geta verið banvænar.

Sár, rof og blæðingar í maga og þörmum

Ef þú hefur einhvern tíma fengið sár í maga eða þarma og sérstaklega ef því hafa fylgt rof eða blæðingar, átt þú að vera á verði fyrir öllum óvenjulegum einkennum í kviðarholi og láta lækni strax vita. Þetta er sérstaklega mikilvægt í upphafi meðferðar og er vegna þess að hætta á blæðingum og sáramyndun í meltingarvegi er meiri vegna lyfsins, sérstaklega hjá eldri sjúklingum.

Ef blæðingar eða sáramyndun verður í meltingarvegi verður að stöðva meðferðina.

Blæðingar, sáramyndun og rof í maga eða þörmum, sem geta verið banvænar, geta orðið án nokkurra viðvörunareinkenna, jafnvel hjá sjúklingum sem ekki hafa haft slík vandamál áður.

Hætta á sárum, rofi eða blæðingum í maga eða þörmum eykst almennt við stærri skammta af íbúprófeni (sjá Notkun annarra lyfja samhliða Íbúfen hér að neðan).

Gæta þarf varúðar þegar NSAID-lyf eru gefin sjúklingum með sögu um meltingarfærasjúkdóma (sáraristilbólgu, Crohns sjúkdóm) vegna þess að einkenni þeirra gætu versnað.

Áhrif á hjarta og heila

Bólgueyðandi verkjalyf eins og íbúprófen getur tengst lítillega aukinni hættu á hjartaáfalli eða heilaslagi, einkum ef það er notað í stórum skömmtum. Ekki fara yfir ráðlagðan skammt eða meðferðarlengd.

Þú átt að ræða meðferðina við lækni eða lyfjafræðing áður en þú hefur töku á Íbúfen ef þú:

 • ert með hjartakvilla, þar á meðal hjartabilun, hjartaöng (brjóstverkir), eða ef þú hefur fengið hjartaáfall, farið í hjáveituaðgerð, ert með sjúkdóm í útlægum slagæðum (lélega blóðrás í fótleggjum vegna þröngra eða stíflaðra slagæða), eða hefur fengið einhvers konar heilaslag (þar á meðal „minniháttar heilaslag“ eða skammvinnt blóðþurrðarkast).
 • ert með háan blóðþrýsting, sykursýki, hátt kólesteról, fjölskyldusaga er um hjartasjúkdóma eða heilaslag eða ef þú ert reykingamaður.

Áhrif á nýru

Íbúprófen getur valdið nýrnavandamálum hjá börnum, unglingum og öldruðum sem skortir vökva.

Íbúprófen getur haft truflandi áhrif á starfsemi nýrna, jafnvel hjá sjúklingum sem ekki hafa fengið nýrnakvilla áður. Þetta getur valdið bjúg á fótum og getur hugsanlega valdið hjartabilun eða háum blóðþrýstingi hjá sjúklingum í áhættuhópum.

Íbúprófen getur valdið nýrnaskemmdum, sérstaklega hjá sjúklingum sem eru fyrir með nýrna-, hjarta- eða lifrarkvilla, eða sem taka þvagræsilyf eða ACE-hemla og hjá öldruðum.

Bati næst hinsvegar yfirleitt þegar hætt er að taka íbúprófen.

Húðviðbrögð

Greint hefur verið frá alvarlegum húðviðbrögðum í tengslum við meðferð með íbúprófeni. Hætta skal töku íbúprófens og leita tafarlaust til læknis, ef einhver húðútbrot, slímhúðarsár, blöðrur eða önnur einkenni ofnæmis koma fram, þar sem þetta geta verið fyrstu einkenni mjög alvarlegra húðviðbragða.

Sýkingar

Íbúprófen getur falið einkenni sýkinga svo sem hita og verk. Því er hugsanlegt að íbúprófen geti tafið viðeigandi meðferð sýkingar, sem getur leitt til aukinnar hættu á fylgikvillum. Þetta hefur sést í tilvikum lungnabólgu af völdum bakteríusýkingar og húðsýkinga af völdum baktería í tengslum við hlaupabólu. Leitið tafarlaust ráða hjá lækni ef þetta lyf er notað á meðan þú ert með sýkingu ef einkenni sýkingarinnar eru þrálát eða versna.
Ráðlagt er að forðast notkun Íbúfen ef um er að ræða hlaupabólu.

Heilahimnubólga án sýkingar

Við meðferð með íbúprófeni hafa komið upp tilfelli af heilahimnubólgu (með einkennum eins og stífum hnakka, höfuðverk, ógleði, uppköstum, hita og vistarfirringu). Þó líkur á þessu séu sennilega meiri hjá sjúklingum með sjálfsofnæmissjúkdóma s.s. rauða úlfa eða blandaða bandvefssjúkdóma, hefur einnig verið greint frá þessu hjá sjúklingum sem ekki hafa undirliggjandi langvinnan sjúkdóm.

Annað til athugunar

Í langtímameðferð með stórum skömmtum verkjalyfja getur komið upp höfuðverkur sem ekki á að meðhöndla með stórum skammti lyfsins. Ofnotkun verkjalyfja getur valdið varanlegum skaða á nýrum og nýrnabilun.

Íbúprófen getur lengt blæðingartíma tímabundið.

Þegar Íbúfen er gefið í lengri tíma þarf að fylgjast reglulega með lifrargildum, nýrnastarfsemi og fjölda blóðkorna.

Íbúfen getur dregið úr möguleikum þínum á að verða þunguð. Þú átt að láta lækninn vita ef þú ert að reyna að verða þunguð eða ef þér gengur illa að verða þunguð. Sjá kaflann „Meðganga, brjóstagjöf og frjósemi“.

Börn og unglingar

Má ekki nota handa börnum yngri en 6 ára.

Notkun annarra lyfja samhliða Íbúfen

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð.

Aukaverkanir af Íbúfen geta aukist ef ákveðin önnur lyf eru tekin á sama tíma. Á hinn bóginn getur Íbúfen aukið eða minnkað áhrif annarra lyfja eða aukið aukaverkanir þeirra þegar þau eru tekin á sama tíma.

Sérstaklega skal láta lækninn eða lyfjafræðing vita ef einhver eftirfarandi lyfja eru notuð:

 • önnur bólgueyðandi gigtarlyf (NSAID-lyf)
 • segavarnarlyf (blóðþynnandi lyf/storkuvarnandi lyf, t.d. asetýlsalisýlsýra, warfarín, heparín)
 • lyf sem hindra samloðun blóðflagna eins og klópidógrel, tiklópídín
 • SSRI-lyf (lyf gegn þunglyndi) s.s. paroxetín, sertralín, citalopram
 • barksterar (notaðir við bólgum)
 • methotrexat (notað við krabbameini og sjálfsnæmissjúkdómum)
 • digoxín (meðferð á ýmsum hjartakvillum)
 • fenýtóín (notað sem fyrirbyggjandi lyf gegn flogum)
 • litíum (við þunglyndi og oflæti)
 • þvagræsilyf (bjúgtöflur), þ.m.t. kalíumsparandi þvagræsilyf
 • lyf sem draga úr háum blóðþrýstingi (ACE-hemlar eins og kaptópríl, beta-blokkar eins og atenólól, angíótensín-II blokkar eins og lósartan)
 • cholestýramín (notað við háu kólesteróli)
 • amínóglýkósíðar (lyf við vissum tegundum baktería)
 • ciclosporín, tacrolimus (bæla ónæmiskerfið eftir líffæraígræðslu)
 • zidovudín (lyf fyrir HIV-sjúklinga)
 • mifepriston
 • probenecíð eða súlfínpýrazón (til meðferðar á þvagsýrugigt)
 • quinolon sýklalyf
 • súlfónýlúrea (við sykursýki af gerð 2)
 • flúkónazól eða voríkónazól (notað til meðferðar við sveppasýkingum)

Notkun Íbúfen með mat eða drykk

Takið Íbúfen með glasi af vatni með eða eftir mat.

Forðist áfengisneyslu vegna þess að það getur aukið aukaverkanir Íbúfen, sérstaklega þær sem hafa áhrif á maga, þarma og heila.

Meðganga, brjóstagjöf og frjósemi

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Ekki taka íbúprófen ef þú ert á síðustu 3 mánuðum meðgöngu þar sem það gæti skaðað ófætt barnið eða valdið vandamálum við fæðingu. Það getur valdið nýrna- og hjartavandamálum hjá ófæddu barninu. Það getur haft áhrif á blæðingartilhneigingu þína og barnsins og valdið því að fæðingarhríðir komi seinna eða verði lengri en búist var við. Þú skalt ekki taka íbúprófen á fyrstu 6 mánuðum meðgöngu nema brýna nauðsyn beri til og samkvæmt ráðleggingum læknis. Ef þú þarft á meðferð að halda á þessu tímabili eða á meðan þú ert að reyna að verða þunguð, ætti að nota minnsta skammtinn í eins stuttan tíma og mögulegt er. Frá 20. viku meðgöngu getur íbúprófen valdið nýrnavandamálum hjá ófæddu barninu, ef það er tekið í meira en nokkra daga, sem getur leitt til of lítils magns legvatns sem umlykur barnið (legvatnsþurrð) eða þrengingu blóðæðar (slagæðarás) í hjarta barnsins. Ef þú þarft á meðferð að halda lengur en í nokkra daga gæti læknirinn mælt með frekara eftirliti.

Íbúprófen berst í brjóstamjólk í litlu mæli og brjóstagjöf þarf yfirleitt ekki að hætta meðan á skammtíma meðferð stendur. Ef hinsvegar langtímameðferð er áætluð, á að meta hvort hætta eigi brjóstagjöf.

Lyfið tilheyrir flokki lyfja sem kallast bólgueyðandi gigtarlyf (NSAID) sem geta skert frjósemi hjá konum. Þessi áhrif ganga til baka þegar notkun lyfsins er hætt.

Akstur og notkun véla

Íbúprófen getur haft áhrif á viðbragðstíma hjá ákveðnum sjúklingum t.d. vegna aukaverkana eins og sundls, syfju, svima eða sjóntruflana. Í einstökum tilfellum geta þær haft áhrif á hæfni til aksturs eða notkunar véla. Þetta gildir enn frekar þegar áfengis er neytt samhliða.

Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í öðrum köflum fylgiseðilsins. Lesið því allan fylgiseðilinn. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.

Íbúfen inniheldur natríum

Lyfið inniheldur minna en 1 mmól (23 mg) af natríum í hverri filmuhúðaðri töflu, þ.e.a.s. er sem næst natríumlaust.

Hvernig nota á Íbúfen 200 mg

Alltaf skal nota lyfið nákvæmlega eins og lýst er í fylgiseðli eða eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur mælt fyrir um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Leitast skal við að nota minnsta virka skammt í eins stuttan tíma og nauðsynlegt er til að lina einkenni.
Leitaðu tafarlaust ráða hjá lækni ef þú ert með sýkingu ef einkenni sýkingarinnar (svo sem sótthiti og verkur) eru þrálát eða versna.

Fullorðnir skulu ekki taka Íbúfen í meira en 7 daga án samráðs við lækni.
Börn og unglingar skulu ekki taka Íbúfen í meira en 3 daga án samráðs við lækni.

Skammtastærð íbúprófens fer eftir aldri sjúklings og þyngd.

Ráðlagður skammtur

Vægur eða meðalmikill verkur og hiti

 • Fullorðnir og unglingar eldri en 12 ára (≥ 40 kg): 1-2 töflur (200-400 mg) sem einn skammtur eða 3-4 sinnum á dag með 4-6 klst. millibili.
  Hámarks dagsskammtur á ekki að fara yfir 6 töflur (1200 mg).
 • Börn 6-12 ára (>20 kg)
  Börn 12 ára og yngri eiga ekki að nota Íbúfen nema í samráði við lækni.
 • Börn 6-9 ára (20-29 kg): 1 tafla (200 mg) 1-3 sinnum á dag á 4-6 klst. fresti eftir þörfum.
  Hámarks skammtur á ekki að fara yfir 3 töflur (600 mg) á dag.
 • Börn 10-12 ára (30-40 kg): 1 tafla (200 mg) 1-4 sinnum á dag á 4-6 klst. fresti eftir þörfum.
  Hámarks skammtur á ekki að fara yfir 4 töflur (800 mg) á dag.

Mígrenihöfuðverkur

 • Fullorðnir og unglingar eldri en 12 ára (≥40 kg): 2 töflur gefnar sem stakur skammtur, 2 töflur á 4 til 6 klst. fresti ef þörf krefur.
  Hámarks dagsskammtur á ekki að fara yfir 6 töflur (1200 mg).

Tíðaverkir

 • Fullorðnir og unglingar eldri en 12 ára: 1-2 töflur (200-400 mg) 1-3 sinnum á dag með 4-6 klst. millibili eftir þörfum.
  Hámarks dagsskammtur á ekki að fara yfir 6 töflur (1200 mg).

Lyfjagjöf

Takið töflurnar með glasi af vatni með eða eftir mat. Til að auðvelda inntöku eða til að stilla skammta má skipta töflunum í tvo jafna skammta.

Ef þú ert fullorðinn og sjúkdómseinkenni lagast ekki eða versna innan 7 daga skalt þú hafa samband við lækni. Ef barn eða unglingur þarf að nota lyfið í meira en 3 daga, eða ef sjúkdómseinkenni versna, skal leita ráða hjá lækni.

Notkun handa börnum

Notið ekki handa börnum yngri en 6 ára.

Aldraðir

Leitið ráða hjá lækni áður en þú notar Íbúfen. Fylgjast þarf sérstaklega vel með öldruðum einstaklingum því þeir eru viðkvæmari fyrir aukaverkunum, sérstaklega blæðingum og rofi í meltingarvegi, sem getur verið banvænt. Læknirinn ráðleggur þér í samræmi við það.

Skert starfsemi nýrna eða lifrar

Ef þú þjáist af skertri starfsemi nýrna eða lifrar skaltu ráðfæra þig við lækni.
Hann mun ráðleggja þér hvernig þú átt að taka lyfið.

Ef tekinn er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef þú hefur tekið meira af Íbúfen en þú átt að gera, eða ef börn hafa fyrir slysni tekið lyfið skaltu alltaf hafa samband við lækni, næstu heilbrigðisstofnun eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222) til að fá ráð og upplýsingar varðandi hættu og hvað þú átt að gera. Einkenni ofskömmtunar geta meðal annars verið ógleði, magaverkur, niðurgangur, uppköst (getur innihaldið blóð), höfuðverkur, eyrnasuð, ringlun og skjálftakenndar augnhreyfingar. Blæðingar frá maga eða þörmum geta einnig komið fram.

Þegar lyfið er tekið í stórum skömmtum og í alvarlegri tilfellum ofskömmtunar hafa verið skráð tilfelli þar sem einkenni geta verið syfja, brjóstverkur, hjartsláttartruflanir, meðvitundarleysi, æsingur, áttavilla, dá, krampi (aðallega hjá börnum), máttleysi, svimi, vöðvakrampi (sérstaklega hjá börnum), óskýr sjón og augnvandamál, nýrnabilun, blóð í þvagi, lifrarskemmdir, lágur blóðþrýstingur, kuldatilfinning, erfiðleikar við öndun, blálitaðar varir, tunga og fingur og aukin blæðingarhætta. Astmasjúklingum getur versnað.

Ef gleymist að taka Íbúfen

Ef þú gleymir að taka skammt skaltu taka hann strax og þú getur nema ef minna en 4 klst. eru fram að áætluðum tíma fyrir næsta skammt.
Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

Fyrirvari

Hugsanlegar aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.

Fylgiseðillinn kann að hafa verið uppfærður eftir að upplýsingarnar að ofan voru teknar saman. Í þeim tilfellum sem upplýsingarnar stangast á skal fara eftir því sem fram kemur í fylgiseðli.

Pakkningar og verð