Ibutrix

Mixtúra, dreifa | 20 mg/ml

Virk innihaldsefni:

Íkomuleið:

Til inntöku

Flokkur:

Lyf fyrir menn

ATC-flokkur:

M01AE01 - Ibuprofenum

Markaðsleyfishafi:

Williams & Halls ehf.

Heildsala:

Parlogis ehf.

Upplýsingar um Ibutrix og við hverju það er notað

Ibutrix inniheldur íbúprófen, virkt efni sem tilheyrir flokki bólgueyðandi gigtarlyfja, sem lina verki, draga úr bólgu og hita. Það er fáanlegt sem mixtúra, dreifa.

Ibutrix er ætlað til skammtímameðferðar gegn:

  • vægum til í meðallagi slæmum verkjum
  • hita

Leitið til læknis ef sjúkdómseinkenni versna eða lagast ekki innan 3 daga.

Ibutrix er ætlað börnum frá 3 mánaða aldri eða þyngri en 5 kg, unglingum og fullorðnum.

Áður en byrjað er að nota Ibutrix

Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknis og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Ibutrix er notað eða ef þú ert með sýkingu - sjá fyrirsögnina „Sýkingar“ hér á eftir.

Ekki má nota Ibutrix

  • ef um er að ræða ofnæmi fyrir íbúprófeni eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins.
  • ef þú ert með ofnæmi fyrir öðrum bólgueyðandi gigtarlyfjum (t.d. asetýlsalisýlsýru) sem eru yfirleitt notuð við verkjum, bólgu og hita. Þetta ofnæmi kemur yfirleitt fram sem astmi, nefkvef, ofsakláði og öndunarerfiðleikar.
  • ef þú átt sögu um blæðingu eða rof í meltingarvegi í tengslum við fyrri meðferð með bólgueyðandi gigtarlyfjum.
  • ef þú ert með sár/blæðingu í maga eða átt sögu um endurtekna sáramyndun/blæðingu (tvö eða fleiri endurtekin tilvik staðfestrar sáramyndunar eða blæðingar)
  • ef þú ert með blóðstorknunarvandamál (með tilhneygingu til aukinnar blæðingar), heilablæðingu eða aðra virka blæðingu.
  • ef þú ert með verulega hjartabilun.
  • ef þú ert með verulega nýrna- eða lifrarbilun.
  • ef þú ert á síðustu 3 mánuðum meðgöngu.
  • ef þú ert með talsverðan vökvaskort (orsakast af uppköstum, niðurgangi eða ónógrar vökvaneyslu).
  • ef þú ert með arfgenga truflun á efnaskiptum porfýrins (t.d. bráða, byljaporfýríu).
  • ef þú ert með langvarandi áfengissýki (14-20 drykkir/viku eða meira).
  • ef þú ert með óútskýrða röskun á blóðmyndun.
  • ef barn er yngra en 3 mánaða eða er minna en 5 kg.

Gætið sérstakrar varúðar við notkun Ibutrix

Notið ávallt minnsta mögulegan skammt í sem stystan tíma. Ef þér finnst lyfið ekki hafa tilætluð áhrif skaltu ræða við lækninn áður en þú stækkar skammtinn.

Áhrif á hjarta

Sjúklingar með ómeðhöndlaðan háþrýsting, hjartabilun, staðfestan blóðþurrðarsjúkdóm í hjarta, sjúkdóma í útlægum æðum og/eða heilaæðum skulu aðeins meðhöndlaðir með íbúprófeni að vandlega íhuguðu máli. Gæta skal sömu varúðar áður en langtímameðferð er hafin hjá sjúklingum með áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma (t.d. háþrýsting, of háa blóðfitu, sykursýki eða sem reykja).

Notkun bólgueyðandi lyfja, svo sem íbúprófens, getur tengst lítillega aukinni hættu á hjartaáfalli eða heilaslagi, sérstaklega í stórum skömmtum. Ekki nota lyfið í stærri skömmtum eða lengri tíma en ráðlagt er.

Ræddu meðferðina við lækninn eða lyfjafræðing áður en þú tekur Ibutrix ef þú:

  • ert með hjartasjúkdóm, þ.m.t. hjartabilun, hjartaöng (brjóstverk) eða ef þú hefur fengið hjartaáfall, farið í hjáveituaðgerð, fengið útslagæðakvilla (slæm blóðrás í fótleggjum eða fótum vegna þrenginga eða stíflunar í slagæðum) eða hvaða tegund heilaslagi sem er (þ.m.t. minniháttar heilablóðfall eða skammvinnt blóðþurrðarkast).
  • ert með háan blóðþrýsting, sykursýki, hátt kólesteról, átt fjölskyldusögu um hjartasjúkdóma eða heilaslag eða ef þú reykir.

Áhrif á meltingarfæri

Greint hefur verið frá blæðingu i meltingarvegi, sáramyndun og rofi, sem getur verið banvænt, við notkun allra bólgueyðandi gigtarlyfja, á öllum stigum meðferðar, með eða án varúðareinkenna eða fyrri sögu um alvarlegar aukaverkanir frá meltingarvegi.

Hættan á blæðingu í meltingarvegi, sáramyndun og rofi eykst með stækkandi skömmtum bólgueyðandi gigtarlyfja, hjá sjúklingum með fyrri sögu um magasár, sérstaklega í tengslum við blæðingu eða rof og hjá eldri sjúklingum. Í þessum tilvikum skal ráðleggja sjúklingum að segja lækni frá öllum einkennum og blæðingu í meltingarvegi, sérstaklega í upphafi meðferðar.

Þessir sjúklingar skulu hefja meðferð með minnsta mögulega skammti. Íhuga skal samsetta meðferð með verndandi lyfjum (t.d. misopristoli eða prótónpumpuhemlum) hjá þessum sjúklingum og einnig fyrir sjúklinga sem þurfa samhliða lágskammta asetýlsalisýlsýru eða önnur lyf sem eru líkleg til að auka sáramyndun eða blæðingu í meltingarvegi, svo sem barkstera, blóðþynnandi lyf (svo sem warfarin), sérhæfða serótónin endurupptökuhemla eða önnur blóðflöguhemjandi lyf.

Þegar blæðing eða sáramyndun í meltingarvegi kemur fram hjá sjúklingum sem nota Ibutrix skal hætta meðferð.

Nota skal bólgueyðandi gigtarlyf með varúð hjá sjúklingum með bólgusjúkdóma í þörmum (sáraristilbólgu, Crohns sjúkdóm) þar sem þessir sjúkdómar geta versnað.

Hægt er að draga úr áhrifum lyfsins á meltingarveg með því að taka það með mat eða eftir mjólkurglas.

Áhrif á húð

Greint hefur verið frá alvarlegum aukaverkunum frá húð í tengslum við meðferð með Ibutrix. Hættu að taka Ibutrix og hafðu strax samband við lækni ef þú færð einhver húðútbrot, sár í slímhúð, blöðrur eða önnur merki um ofnæmi þar sem þetta geta verið fyrstu merki um mjög alvarleg húðviðbrögð.

Áhrif á augu

Sjúklingar sem fá sjóntruflanir meðan á íbúprófen meðferð stendur skulu hætta notkun lyfsins og hafa samband við augnlækni.

Sýkingar

Ibutrix getur dulið einkenni sýkingar svo sem hita og verki. Það er því mögulegt að Ibutrix tefji viðeigandi meðferð gegn sýkingu, sem getur aukið hættuna á fylgikvillum. Þessi áhrif hafa sést við lungnabólgu vegna bakteríusýkingar og í bakteríusýkingum sem tengjast hlaupabólu. Ef þú notar lyfið meðan þú ert með sýkingu og einkenni hennar eru viðvarandi eða versna, skaltu strax hafa samband við lækni.

Börn

Börn yngri en 3 mánaða og léttari en 5 kg skulu ekki fá Ibutrix.

Ráðfærðu þig við lækninn eða lyfjafræðing ef þú ert með önnur heilsufarsvandamál eða ef þú notar önnur lyf.

Notkun annarra lyfja samhliða Ibutrix

Ibutrix getur haft áhrif á eða orðið fyrir áhrifum af öðrum lyfjum. Til dæmis:

  • segavarnarlyf (þ.e. koma í veg fyrir blóðtappa, t.d. aspirín/acetýlsalicýlsýra, warfarín, ticlopidin)
  • lyf sem draga úr háum blóðþrýstingi (ACE-hemlar t.d. captopril, beta-blokkar eins og atenolól, angiotensin-II hemlar eins og losartan)

Sum önnur lyf geta einnig haft áhrif á Ibutrix og Ibutrix getur haft áhrif á þau. Leitið því alltaf ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Ibutrix er notað með öðrum lyfjum.

Segðu lækninum ef þú notar einhver eftirtalinna lyfja að staðaldri:

  • lyf við gigt eða verkjum
  • önnur bólgueyðandi gigtarlyf (NSAID)
  • barkstera, oft notaðir sem bólgueyðandi lyf (samhliða notkun eykur hættuna á sáramyndun eða blæðingu í meltingarvegi)
  • sérhæfða serótónin-endurupptökuhemla, notaðir við meðhöndlun þunglyndis (samhliða notkun getur aukið hættuna á blæðingu í meltingarvegi)
  • lyf sem innihalda probenecid eða sulfinpyrazone (geta seinkað útskilnaði íbúprófens, sem leiðir til hærri blóðgilda)
  • metótrexat, notað við sumum gerðum krabbameins, liðagigtar og sóra
  • litíum, notað við geðhvarfasýki
  • hjartaglýkósíðar, svo sem digoxín (bólgueyðandi gigtarlyf geta valdið versnun hjartabilunar, dregið úr hraða gaukulsíunar og hækkað blóðgildi hjartaglýkósíða)
  • kólestýramín (samhliða notkun íbúprófens og kólestýramíns getur dregið úr frásogi íbúprófens úr meltingarveginum)
  • ciclosporin (samhliða notkun bólgueyðandi gigtarlyfja og ciclosporins eykur hættuna á nýrnaskemmdum)
  • amínóglýkósíðar (bólgueyðandi gigtarlyf geta dregið úr útskilnaði amínóglýkósíða)
  • kínólónar (sjúklingar sem taka bólgueyðandi gigtarlyf og kínólóna geta verið í aukinni hættu á krömpum)
  • Ginkgo Biloba (getur aukið hættuna á blæðingu)
  • mifepriston (bólgueyðandi gigtarlyf geta dregið úr áhrifum mifepristons)
  • tacrolimus (hætta á nýrnaskemmdum er mögulega aukin þegar bólgueyðandi gigtarlyf er notað ásamt tacrolimus)
  • zidovudin (aukin hætta á eituráhrifum á blóð þegar bólgueyðandi gigtarlyf er notað ásamt zidovudini)
  • CYP2C9 hemlar (samhliða notkun íbúprófens og CYP2C9 hemla getur aukið útsetningu fyrir íbúprófeni, hvarfefni CYP2C9)
  • sykursýkilyf til inntöku, svo sem súlfonýlúrea lyf (bólgueyðandi gigtarlyf geta aukið áhrif súlfonýlúrealyfja. Greint hefur verið frá mjög sjaldgæfum tilvikum blóðsykursfalls hjá sjúklingum sem fá bæði súlfonýlúrea lyf og íbúprófen)
  • fenýtóín, notað við meðhöndlun flogaveiki.

Notkun Ibutrix með mat, drykk eða áfengi

Ibutrix skal helst tekið eftir mat.

Ekki drekka áfengi meðan á meðferð stendur.

Meðganga og brjóstagjöf

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Ekki nota íbúprófen á meðgöngu eða meðan barn er á brjósti nema því hafi verið ávísað af lækni. Notkun þess á síðustu 3 mánuðum meðgöngu veldur hættu á fósturskaða eða vandamálum við fæðingu. Íbúprófen getur hindrað hríðaverki og dregið fæðingu á langinn.

Akstur og notkun véla

Almennt hefur skammtímameðferð með íbúprófeni ekki áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla.

Lyfið (íbúprófen) getur þó haft einstaklingsbundin áhrif sem valda syfju, sundli, sjóntruflunum eða þreytu, sérstaklega í upphafi meðferðar, sem geta haft áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla.

Ibutrix inniheldur sorbitól (E420), tartrasín (E102), ponceau 4R rautt (E214), própýlparaben (E216) og metýlparaben (E218)

Ibutrix inniheldur sorbitól (E420). Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn.

Ibutrix inniheldur litarefnin tartrasín (E102) og ponceau 4R rautt (E124) sem geta valdið ofnæmisviðbrögðum.

Ibutrix inniheldur própýlparaben (E216) og metýlparaben (E218) sem geta valdið ofnæmisviðbrögðum, mögulega síðkomnum.

Lyfið inniheldur minna en 1 mmól (23 mg) af natríum í hverjum millilítra, þ.e.a.s. er sem næst natríumlaust.

Hvernig nota á Ibutrix

Alltaf skal nota lyfið nákvæmlega eins og lýst er í fylgiseðli eða eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur mælt fyrir um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Hafið samband við lækninn ef þörf er á lyfinu í meira en 3 daga eða ef einkenni versna.

Nota skal minnsta virkan skammt í eins skamman tíma og unnt er til að lina einkenni. Ef þú ert með sýkingu skaltu hafa samband við lækninn ef einkenni (svo sem hiti og verkir) eru viðvarandi eða versna.

Hægt er að halda aukaverkunum í lágmarki með því að nota minnsta virka skammt í eins stuttan tíma og þarf til að ná stjórn á einkennum.

Notkun handa börnum

Íbúprófen er ekki ráðlagt fyrir börn yngri en 3 mánaða eða undir 5 kg líkamsþyngd, þar sem ónóg gögn liggja fyrir um notkun lyfsins hjá þessum aldurshópi.

Skammtur íbúprófens veltur á aldri og þyngd barnsins. Ráðlagður dagsskammtur er 20 mg/kg til 30 mg/kg líkamsþyngdar, skipt í 3 til 4 skammta. Lágmark 6 klst. skulu líða milli skammta.

Reikna skal skammtinn út frá líkamsþyngd. Eftirfarandi tafla sýnir dæmigerða skömmtun, sem getur verið breytileg eftir ábendingu:

  • 3 til 6 mánaða (~ 5 - 7 kg): 50 mg (2,5 ml), 3svar á dag
  • 6 mánaða til 1 árs (~ 7-10 kg): 50 mg (2,5 ml), 3 - 4 sinnum á dag
  • 1 til 4 ára (~ 10 - 16 kg): 100 mg (5 ml), 3svar á dag
  • 4 til 7 ára (~ 16 - 25 kg): 150 mg (7,5 ml), 3svar á dag
  • 7 til 10 ára (~ 25 - 32 kg): 200 mg (10 ml), 3svar á dag
  • 10 til 12 ára (~ 25 - 40 kg): 300 mg (15 ml), 3svar á dag

Fullorðnir og unglingar

Þó önnur lyfjaform íbúprófens (t.d. íbúprófen 200 mg, 400 mg eða 600 mg töflur) séu yfirleitt notuð, má nota Ibutrix ef það er erfitt að kyngja töflum, í 15 ml til 20 ml skömmtum (jafngildir 300 mg til 400 mg), 3 til 4 sinnum á dag. Hjá börnum og unglingum er hámarksskammturinn 2400 mg/dag.

Aldraðir

Bólgueyðandi gigtarlyf skulu notuð með varúð hjá öldruðum.

Skert nýrnastarfsemi

Gæta skal varúðar þegar bólgueyðandi gigtarlyf eru gefin sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi. Hjá sjúklingum með vægt til í meðallagi mikið skerta nýrnastarfsemi skal nota minni skammta.
Sjúklingar með verulega skerta nýrnastarfsemi skulu ekki nota íbúprófen.

Skert lifrarstarfsemi

Gæta skal varúðar þegar bólgueyðandi gigtarlyf eru gefin sjúklingum með skerta lifrarstarfsemi.
Sjúklingar með verulega skerta lifrarstarfsemi skulu ekki nota íbúprófen.

Lyfjagjöf

Til inntöku.

Takist helst eftir máltíðir.

Mæliskeið með tvo kvarða (5 ml og 2,5 ml) og skammtasprauta fylgja í pakkningunni til að auðvelda skömmtun. Hver ml af mixtúru, dreifu, inniheldur 20 mg af íbúprófeni.

Lyfjagjöf með sprautu

  1. Hristið flöskuna fyrir hverja notkun
  2. Þrýstið á lokið og snúið því rangsælis til að opna flöskuna
  3. Setjið brodd sprautunnar í mixtúruna
  4. Til að fá réttan skammt skal toga efri hringinn upp (meðan neðri hringnum er haldið kyrrum) og ýta varlega að markinu fyrir réttan skammt (í ml)
  5. Setjið sprautuna í munninn. Hallið höfðinu aftur og þrýstið bullunni hægt niður til að ýta mixtúrunni úr sprautunni.
  6. Setjið lokið á flöskuna eftir hverja notkun. Þvoið sprautuna með rennandi vatni og látið þorna.

Lyfjagjöf með mæliskeið

  1. Hristið flöskuna fyrir hverja notkun
  2. Þrýstið á lokið og snúið því rangsælis til að opna flöskuna
  3. Notið þann enda skeiðarinnar sem samsvarar réttum skammti
  4. Hellið mixtúrunni í skeiðina
  5. Setjið skeiðina í munninn og gefið skammtinn.
  6. Setjið lokið á flöskuna eftir hverja notkun. Þvoið skeiðina með rennandi vatni og látið þorna.

Ef tekinn er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef of stór skammtur af Ibutrix hefur verið notaður, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222).

Einkenni geta meðal annars verið ógleði, magaverkur, uppköst (getur innihaldið blóð), höfuðverkur, suð fyrir eyrum, ringlun og skjálftakenndar augnhreyfingar. Við stóra skammta hefur verið greint frá svefnhöfga, brjóstverk, hjartsláttarónotum, skertri meðvitund, krömpum (helst hjá börnum), slappleika og sundli, blóði í þvagi, kuldatilfinningu og öndunarerfiðleikum.

Almennt þolast stórir skammtar af íbúprófeni vel.

Við ofskömmtun getur þú fengið höfuðverk, sundl og skerta meðvitund, kviðverk, ógleði og uppköst.
Lágþrýstingur (lágur blóðþrýstingur), öndunarbæling (öndunarerfiðleikar) og blámi (bláleit húð) geta komið í kjölfarið.

Í þessum tilvikum skal leita læknis. Læknirinn mun ákveða viðeigandi meðferð eftir alvarleika eitrunarinnar.

Ef gleymist að taka Ibutrix

Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

Fyrirvari

Hugsanlegar aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.

Fylgiseðillinn kann að hafa verið uppfærður eftir að upplýsingarnar að ofan voru teknar saman. Í þeim tilfellum sem upplýsingarnar stangast á skal fara eftir því sem fram kemur í fylgiseðli.

Pakkningar og verð