Virk innihaldsefni:

Íkomuleið:

Til notkunar á húð

Flokkur:

Lyf fyrir menn

ATC-flokkur:

N07BA01 - Nicotinum

Markaðsleyfishafi:

Haleon Denmark ApS

Umboðsmaður:

Artasan ehf.

Heildsala:

Distica hf.

Upplýsingar um Nicotinell forðaplástur og við hverju hann er notaður

Nicotinell forðaplástur tilheyrir flokki lyfja sem eru notuð þegar verið er að venja sig af reykingum.

Nicotinell forðaplástur fæst í þremur styrkleikum (7 mg/24 klst., 14 mg/24 klst. og 21 mg/24 klst.).

Nicotinell forðaplástur inniheldur nikótín sem er eitt af innihaldsefnum tóbaks.

Þegar þú notar Nicotinell forðaplástur losnar nikótínið smám saman og berst í líkamann í gegnum húðina.

Nicotinell forðaplástur er notaður sem hjálpartæki til að draga úr fráhvarfseinkennum þegar verið er að venja sig af reykingum.

Ráðgjöf og stuðningur við sjúklinga auðveldar þeim venjulega að hætta að reykja.

Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknisins og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Ekki má nota Nicotinell forðaplástur ef þú:

  • ert með ofnæmi fyrir nikótíni eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins.
  • reykir ekki eða stundar tækifærisreykingar.

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Nicotinell forðaplástur er notaður, ef þú:

  • hefur nýlega fengið hjartaáfall, slag, hjartabilun eða hjartastopp. Þú skalt reyna að hætta reykingum án þess að nota plásturinn, nema ef læknirinn hefur ráðlagt það. Leitaðu ráða hjá lækninum ef hjartakvillar versna.
  • ert með hjartasjúkdóm. Ef þú hefur verið með hjartakvilla skaltu einungis nota samsetta Nicotinell meðferð ef læknirinn ráðleggur það.
  • ert með of háan blóðþrýsting
  • ert með sykursýki. Þú skalt fylgjast með magni blóðsykurs oftar en venjulega þegar þú byrjar að nota Nicotinell forðaplástra. Insúlínnotkun þín eða notkun annarra lyfja getur breyst.
  • ert með ofvirkan skjaldkirtil
  • ert með ofvirkar nýrnahettur
  • ert með alvarlega skerta nýrna- og/eða lifrarstarfsemi
  • ert með magasár eða sár í skeifugörn eða bólgur í vélinda (leiðin á milli munns og maga), þar sem uppbótarmeðferð með nikótíni getur gert einkennin verri.
  • ert með mikinn roða, kláða, útbrot eða bólgur þar sem plásturinn var settur á húðina
  • hefur einhvern tíma fengið krampakast

Hættu notkun plástursins og leitað ráða hjá lækninum ef þú færð roða í húð, þrota eða útbrot. Það er líklegra að þú fáir þessi viðbrögð ef þú hefur áður fengið exem.

Ef þú ferð í sneiðmyndatöku (MRI) á að fjarlægja plásturinn áður en farið er í myndatökuna. Setja má nýjan plástur aftur á eftir myndatökuna.

Notkun annarra lyfja samhliða Nicotinell

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð.

Engar upplýsingar liggja fyrir um verkun Nicotinell forðaplásturs þegar hann er notaður samhliða öðrum lyfjum. Ef reykingum er hætt getur það haft áhrif á verkun nokkurra lyfja.

Þetta á sérstaklega við um ef þú notar lyf sem innihalda:

  • teofyllín (lyf sem eru notuð til meðhöndlunar við astma)
  • rópiniról (lyf sem eru notuð til meðhöndlunar við Parkinsons sjúkdómi)
  • olanzapín og clozapín (lyf sem eru notuð til meðhöndlunar á geðklofa og/eða þunglyndi)

Notkun Nicotinell forðaplástur með mat eða drykk

Nicotinell forðaplástur má nota þegar matar og drykkjar er neytt.

Meðganga og brjóstagjöf

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðing áður en lyfið er notað.

  • Meðganga: Þú mátt einungis nota Nicotinell forðaplástur í samráði við lækninn eða lækni sem hefur sérþekkingu í að aðstoða fólk við að hætta að reykja ef þú ert barnshafandi.
    Ef þú ert barnshafandi áttu alltaf að hætta að reykja þar sem reykingar hafa áhrif á vöxt fóstursins. Þú skalt hætta reykingum án þess að nota uppbótarmeðferð með nikótínlyfjum. Ef þú getur ekki hætt reykingum án þess að nota uppbótarmeðferð með nikótínlyfjum er minni áhætta fyrir fóstrið af notkun Nicotinell forðaplásturs en ef reykingum er haldið áfram. Nikótín er skaðlegt fyrir barnið, sama í hvaða formi það er.
  • Brjóstagjöf: Ef þú ert með barn á brjósti skaltu fyrst reyna að hætta að reykja án þess að nota lyf til að hætta reykingum. En ef þú hefur reynt að hætta og ekki tekist skaltu einungis nota lyf til að hætta reykingum, svo sem Nicotinell forðaplástur, í samráði við lækninn, þar sem nikótín berst í brjóstamjólk.

Akstur og notkun véla

Nicotinell forðaplástur hefur ekki áhrif á hæfni til aksturs eða umferðaröryggi.
Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í öðrum köflum fylgiseðilsins. Lesið því allan fylgiseðilinn. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.

Hvernig nota á Nicotinell forðaplástur

Þú átt að hætta að reykja um leið og þú byrjar að nota Nicotinell forðaplástur. Að hætta reykingum alfarið frá fyrsta degi getur verið lykilatriði í ferlinu við að hætta að reykja. Ráðgjöf og stuðningur auðveldar fólki venjulega að hætta að reykja.

Ráðlagðir skammtar á sólarhring fara eftir þinni reykingaþörf.

Fullorðnir eldri en 18 ára

Ef þú reykir meira en sem samsvarar 20 sígarettum á sólarhring:

  • 1 plástur með 21 mg/24 klst. daglega í 3-4 vikur (skref 1), síðan
  • 1 plástur með 14 mg/24 klst. daglega í 3-4 vikur (skref 2) og að lokum
  • 1 plástur með 7 mg/24 klst. daglega í 3-4 vikur (skref 3).

Ef þú reykir minna en sem samsvarar 20 sígarettum á sólarhring:

  • 1 plástur með 14 mg/24 klst. daglega í 3-4 vikur (skref 2), síðan
  • 1 plástur með 7 mg/24 klst. daglega í 3-4 vikur (skref 3).

Forðaplásturinn er límdur á húðina, þar sem hvorki er hárvöxtur né húðin sködduð.

Mælt er með að nota plásturinn allan sólarhringinn til að draga sem mest úr reykingaþörfinni á morgnana. Ef þú vilt getur þú tekið plásturinn af fyrir svefninn.

Ráðfærðu þig við lækninn ef þú hefur enn þörf fyrir að nota Nicotinell forðaplástur eftir 12 mánaða notkun.

Skert nýrnastarfsemi
Skal nota með varúð hjá sjúklingum með miðlungsmikið til verulega skerta nýrnastarfsemi.

Skert lifrarstarfsemi
Skal nota með varúð hjá sjúklingum með miðlungsmikið til verulega skerta lifrarstarfsemi.

Notkunarleiðbeiningar

  1. Klipptu barnaöryggisumbúðirnar þar sem merkt er. Fjarlægðu minni hliðina af álþynnunni. Haltu í húðlitaðan plásturinn og dragðu afganginn af þynnunni af. Forðastu að snerta límið.
  2. Settu plásturinn á hreinan, þurran og helst hárlausan stað á líkamanum, t.d. bakið, bringuna, upphandlegg eða mjöðmina.
  3. Þrýstu plástrinum með flötum lófa að húðinni í u.þ.b. 10-20 sek. Plásturinn má ekki losa eða flytja til því þá límist hann síður.
  4. Skiptu um plástur einu sinni á sólarhring. Nicotinell á ekki að setja á sama stað tvisvar sinnum í röð. Vika á að líða, áður en plástur er settur aftur á sama stað. Húðin á að vera heil og án nokkurrar ertingar (roða).

Ef plásturinn losnar áttu að fleygja honum og setja nýjan á annan stað á líkamanum.

Eftir að plásturinn hefur verið settur á skal þvo hendurnar vandlega til að forðast ertingu í augum.

Notaða plástra á að brjóta saman (þannig að ytra byrðið snúi út) og fleygja þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Þegar hætt er að reykja með samsettri meðferð með Nicotinell forðaplástri og Nicotinell tyggigúmmíi eða munnsogstöflum

Ef þú getur ekki hætt að reykja með því að nota eingöngu Nicotinell forðaplástra, getur þú notað Nicotinell tyggigúmmí 2 mg eða Nicotinell munnsogstöflur 1 mg samhliða.
Lesið fylgiseðilinn fyrir Nicotinell tyggigúmmí og Nicotinell munnsogstöflur áður en þú hefur samsetta meðferð.

Ráðlagt er að nota samsetta meðferð ásamt ráðgjöf og stuðningi frá heilbrigðisstarfsmanni.
Stórreykingamönnum (þeim sem reykja fleiri en 20 sígarettur á sólarhring eða reykja fyrstu sígarettuna innan við 30 mínútum eftir að þeir vakna) er ráðlagt að nota Nicotinell forðaplástur ásamt Nicotinell tyggigúmmíi 2 mg eða Nicotinell munnsogstöflum 1 mg.

Hámarksskammtur á sólarhring í samsettri meðferð er 21 mg nikótín forðaplástur ásamt hámark 15 stykkjum á sólarhring af:

  • Nicotinell tyggigúmmi 2 mg
  • Nicotinell munnsogstöflur 1 mg

Samsett meðferð í upphafi
Fyrstu 3-4 vikurnar skaltu nota:

  • Nicotinell forðaplástur 21 mg eða 14 mg/24 klst. (fer eftir hversu mikið er reykt á dag)
  • Nicotinell tyggigúmmí 2 mg eða Nicotinell munnsogstöflur 1 mg. Í flestum tilfellum eru 5-6 stk. á sólarhring nægileg.
  • Ekki má nota meira en ráðlagðan skammt af Nicotinell tyggigúmmíi eða munnsogstöflum.

Héðan í frá skal minnka skammtana smám saman.

Þetta gerur þú gert annað hvort samkvæmt valkosti 1 eða valkosti 2:

Valkostur 1:
Notaðu forðaplástur með minni styrkleika, þ.e.a.s. 14 mg/24 klst. í 3-6 vikur og fylgt eftir með 7 mg/24 klst. í 3-6 vikur í viðbót, ásamt upphafsskammtinum af nikótíni (munnsogstöflur/tyggigúmmí). Síðan skal minnka fjöldann af Nicotinell munnsogstöflum/tyggigúmmíi í þrepum. Hámarks meðferðartíminn í heild er 12 mánuðir (fyrir meðferðina og minnkun nikótínskammta). Ef þú hefur þörf fyrir að nota samsetningu forðaplásturs ásamt tyggigúmmíi/munnsogstöflum lengur en í 12 mánuði til að hætta að reykja skaltu ræða við lækninn eða lyfjafræðing.

Valkostur 2:
Hættu að nota plásturinn og minnkaðu fjöldann af munnsogstöflum/tyggigúmmíi í þrepum.
Hámarks meðferðartíminn í heild er 12 mánuðir (fyrir upphafsmeðferðina og minnkun á nikótínskömmtum).
Ef þú hefur þörf fyrir að nota samsetningu forðaplásturs ásamt tyggigúmmíi/munnsogstöflum lengur en í 12 mánuði til að hætta að reykja skaltu ræða við lækninn eða lyfjafræðing.

Hægt er að sjá töflu með ráðleggingum um skammtastærðir í fylgiseðli.

Notkun handa börnum og unglingum yngri en 18 ára

Börn og unglingar yngri en 18 ára mega einungis nota Nicotinell forðaplástur í samráði við lækni.

Ef notaður er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið notaður eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222). Hafið umbúðir lyfsins við höndina.

Ef þú hefur notað of marga plástra í einu getur þú farið að finna fyrir lasleika, sundli og vanlíðan.
Fjarlægðu alla plástrana og þvoðu húðina með vatni og þurrkaðu. Hafðu strax samband við lækni.

Við ofskömmtun getur húðin orðið föl, þú fundið fyrir aukinni tilhneigingu til að svitna, ósjálfráðum vöðvasamdrætti, truflun í snertiskyni og ringlun.

Við mikla ofskömmtun getur komið fram örmögnun, krampar, lágur blóðþrýstingur sem leiðir til blóðrásarbilunar eða öndunarbilunar.

Ef þú notar of marga forðaplástra getur þú fengið sömu einkenni og af mjög miklum reykingum.

Ef grunur leikur á eitrun hjá barni skal strax hafa samband við lækni. Jafnvel lítið magn af nikótíni getur verið hættulegt börnum og getur valdið alvarlegum einkennum og jafnvel dauða.

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn hefur sagt til um. Ef þú ert ekki viss um hvernig á að nota lyfið leitaðu þá upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Fyrirvari

Hugsanlegar aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.

Fylgiseðillinn kann að hafa verið uppfærður eftir að upplýsingarnar að ofan voru teknar saman. Í þeim tilfellum sem upplýsingarnar stangast á skal fara eftir því sem fram kemur í fylgiseðli.

Pakkningar og verð