Nicotinell Lakrids

Virk innihaldsefni:

Íkomuleið:

Til notkunar út í kinn

Flokkur:

Lyf fyrir menn

ATC-flokkur:

N07BA01 - Nicotinum

Markaðsleyfishafi:

Haleon Denmark ApS

Umboðsmaður:

Artasan ehf.

Heildsala:

Distica hf.

Upplýsingar um Nicotinell Lakrids og við hverju það er notað

Nicotinell Lakrids lyfjatyggigúmmí tilheyrir flokki lyfja sem notaður er sem hjálpartæki þegar reykingum er hætt.

Nicotinell Lakrids inniheldur virka efnið nikótín. Þegar þú tyggur Nicotinell Lakrids losnar nikótínið hægt og frásogast í gegnum slímhúðina í munninum.

Nicotinell Lakrids lyfjatyggigúmmí er notað til að draga úr nikótínþörf og fráhvarfseinkennum nikótíns hjá einstaklingum sem eru háðir nikótíni. Þannig getur það:

 • auðveldað reykingafólki sem vill hætta að reykja að hætta og
 • auðveldað reykingafólki, sem ekki getur eða ekki vill hætta að reykja, að draga úr reykingum.

Verið getur að læknirinn hafi ávísað Nicotinell Lakrids lyfjatyggigúmmí við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknisins og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.
Ráðgjöf og stuðningur við sjúklinga eykur líkur á árangri.

Nicotinell Lakrids er ætlað þeim sem reykja og eru 18 ára og eldri.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Ekki má nota Nicotinell Lakrids ef um er að ræða ofnæmi fyrir nikótíni eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins.

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Nicotinell lyfjatyggigúmmí er notað ef þú:

 • hefur nýlega fengið hjartasjúkdóm t.d. hjartaáfall, ert með hjartsláttartruflanir, hjartabilun eða brjóstverk (hjartaöng). Ef þú finnur fyrir auknum hjartavandamálum meðan á notkun lyfsins stendur skaltu draga úr eða hætta notkun þess.
 • hefur fengið heilablóðfall.
 • ert með of háan blóðþrýsting.
 • ert með blóðrásarvandamál.
 • ert með sykursýki. Þú skalt fylgjast oftar en venjulega með blóðsykursgildum þegar þú byrjar að nota Nicotinell lyfjatyggigúmmí. Þörf fyrir insúlín eða önnur lyf getur breyst.
 • ert með ofvirkan skjaldkirtil.
 • ert með ofvirkar nýrnahettur.
 • ert með alvarlega skerta nýrna- og/eða lifrarstarfsemi.
 • ert með óþol fyrir frúktósa.
 • ert með sár í skeifugörn, magasár eða bólgur í vélinda þar sem uppbótarmeðferð með nikótíni getur aukið einkennin.
 • hefur verið með flogaveiki.

Geymið ávalt lyf þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki er víst að þú megir nota Nicotinell Lakrids lyfjatyggigúmmí ef þú ert með einhvern af ofangreindum sjúkdómum.

Einstaklingar með gervitennur geta átt í erfiðleikum með að tyggja tyggigúmmí. Þeim er því ráðlagt að nota önnur lyfjaform nikótínlyfja.

Þú mátt ekki reykja samhliða notkun Nicotinell Lakrids lyfjatyggigúmmí þar sem þú getur fengið það mikið magn af nikótíni í líkamann að þú verður veik/-ur.

Börn og unglingar

Jafnvel litlir skammtar geta verið hættulegir og haft alvarlegar eiturverkanir hjá börnum, sem getajafnvel verið lífshættulegir. Ef grunur er um eiturverkanir hjá barni skal tafarlaust hafa samband við lækni. Þess vegna er mjög mikilvægt að geyma Nicotinell Lakrids lyfjatyggigúmmí öllum stundum þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Notkun annarra lyfja samhliða Nicotinell Lakrids lyfjatyggigúmmís

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð. Verkun sumra lyfja sem þú gætir verið að taka getur breyst ef þú hættir að reykja.
Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

Notkun Nicotinell Lakrids með mat eða drykk

Þú skalt forðast að drekka súra drykki, eins og t.d. kaffi og svaladrykki, í allt að 15 mínútur fyrir notkun tyggigúmmísins, þar sem þessir drykkir geta dregið úr upptöku nikótíns úr munni.

Meðganga og brjóstagjöf

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

 • Meðganga: Ef þú ert þunguð ættir þú að hætta að reykja án þess að nota hjálpartæki. Ef þú getur ekki hætt án þess að nota hjálpartæki til að hætta að reykja skal eingöngu hefja notkun Nicotinell í samráði við lækni.
 • Brjóstagjöf: Nikótín skilst út í brjóstamjólk í þeim mæli að gera má ráð fyrir áhrifum á börn sem eru á brjósti. Ef þú ert með barn á brjósti máttu einungis nota Nicotinell Lakrids í samráði við lækninn. Ef þú ert þunguð eða með barn á brjósti og læknirinn hefur ráðlagt þér að nota Nicotinell lyfjatyggigúmmí skaltu nota aðrar bragðtegundir en Lakrids.

Akstur og notkun véla

Nicotinell Lakrids hefur ekki áhrif á hæfni til aksturs eða umferðaröryggi. Þú skalt hafa í huga að reykbindindi getur valdið atferlisbreytingum.

Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í öðrum köflum fylgiseðilsins. Lesið því allan fylgiseðilinn. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.

Nicotinell Lakrids lyfjatyggigúmmí inniheldur sorbitól, bútýlhýdroxýtólúen (E321) og natríum

Nicotinell Lakrids lyfjatyggigúmmí inniheldur sorbitól. Sorbitól breytist í frúktósa. Þeir sem hafa fengið þær upplýsingar hjá lækni að þeir (eða barnið) séu með óþol fyrir ákveðnum sykrum eða hafa fengið greininguna arfgengt frúktósaóþol, sem er mjög sjaldgæfur erfðagalli þar sem einstaklingur getur ekki brotið niður frúktósa, skulu ræða við lækninn áður en lyfið er notað.

Lyfið inniheldur 0,2 g af sorbitóli í hverju tyggigúmmíi.

Nicotinell Lakrids inniheldur bútýlhýdroxýtólúen (E321) sem getur valdið staðbundinni ertingu í munnslímhúð.

Lyfið inniheldur minna en 1 mmól (23 mg) af natríum í hverju tyggigúmmíi, þ.e.a.s. er sem næst natríumlaust.

Hvernig nota á Nicotinell Lakrids

Alltaf skal nota lyfið nákvæmlega eins og lýst er í fylgiseðli eða eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur mælt fyrir um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Ráðlagður sólarhringsskammtur fer eftir því hversu háð/-ur þú ert reykingum. Þú skalt nota Nicotinell Lakrids 4 mg tyggigúmmí ef:

 • þú ert reykingamanneskja með mikla nikótínþörf eða
 • þér hefur ekki tekist að hætta að reykja með notkun 2 mg tyggigúmmís

Í öðrum tilfellum skaltu nota Nicotinell Lakrids 2 mg lyfjatyggigúmmí.

Í fylgiseðli má sjá töflu sem getur hjálpað þér að finna viðeigandi meðferð fyrir þig.

Ef þú færð aukaverkanir við notkun stærri skammtsins (4 mg tyggigúmmí), skaltu íhuga minni skammt (2 mg tyggigúmmí) í staðinn.

Mikilvægt er að tyggja tyggigúmmíið rétt til að forðast óþægindi (t.d. hiksta eða brjóstsviða).

Hefja skal notkun Nicotinell tyggigúmmís fyrsta daginn sem reykingum er hætt. Þú átt að hætta að reykja um leið og meðferð hefst til að tryggja að þér takist að hætta að fullu.

Tyggið eitt tyggigúmmí þegar þegar þú finnur fyrir reykingaþörf. Ekki nota meira en eitt tyggigúmmí í einu. Ekki nota meira en eitt tyggigúmmí á klst.

Tuggutækni

 1. Tyggið hægt þar til finnst sterkt bragð. Ekki borða eða drekka á meðan tyggigúmmíið er í munninum.
 2. Látið tyggigúmmíið hvíla á milli kinnar og tannholds.
 3. Tyggið aftur þegar bragðið dofnar.
 4. Endurtakið í u.þ.b. 30 mínútur.

Ekki má kyngja tyggigúmmíinu.

Ráðlagður skammtur

 • Fullorðnir eldri en 18 ára: Notaðu tyggigúmmíið þegar þú finnur fyrir reykingaþörf.
  Í upphafi meðferðar skaltu venjulega nota eitt tyggigúmmí á 1-2 klst. fresti. Í flestum tilfellum nægir að nota 8-12 tyggigúmmí á sólarhring, óháð hvaða styrkleika þú notar. Þú mátt ekki nota fleiri en 24 Nicotinell Lakrids 2 mg lyfjatyggigúmmí eða meira en 15 Nicotinell Lakrids 4 mg lyfjatyggigúmmí á sólarhring.

  Þegar hætta á reykingum
  Lengd meðferðar er einstaklingsbundin. Í flestum tilfellum varir meðferðin í minnst 3 mánuði. Eftir 3 mánuði skal draga úr fjölda nikótíntyggigúmmía smám saman. Meðferð skal hætt þegar neyslan er komin niður í 1-2 tyggigúmmí á sólarhring.
  Ekki er mælt með notkun tyggigúmmís lengur en í 12 mánuði. Sumt reykingafólk gæti þó þurft lengri meðferð til þess að forðast að byrja aftur að reykja.
  Leitaðu faglegrar ráðgjafar hjá lækni eða lyfjafræðingi ef þú getur ekki hætt að nota Nicotinell Lakrids tyggigúmmí eftir eitt ár.

  Þegar dregið er úr reykingum
  Nicotinell Lakrids er notað milli reykinga til að lengja reyklaus tímabil og þannig draga úr reykingum eins og mögulegt er. Ef þú hefur ekki dregið úr fjölda sígaretta á sólarhring eftir 6 vikur skaltu leita faglegrar ráðgjafar. Hætta skal reykingum um leið og þú ert reiðubúin til þess, þó ekki síðar en eftir 6 mánaða meðferð. Leitaðu ráða hjá lækni eða lyfjafræðingi ef þér hefur ekki tekist að hætta reykingum eftir 9 mánaða meðferð.
  Nicotinell Lakrids á að nota samhliða stuðningi og ráðgjöf í reykbindindi, ef mögulegt er, þar sem það auðveldar fólki yfirleitt að hætta að reykja.
 • Börn og unglingar yngri en 18 ára: Nicotinell Lakrids er ekki ætlað börnum og unglingum yngri en 18 ára nema í samráði við lækni.

Ef notaður er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef of stór skammtur af Nicotinell Lakrids hefur verið notaður eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið, skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða Eitrunarmiðstöð (sími 543 2222). Hafðu pakkninguna meðferðis.

Ef þú notar of mörg Nicotinell lyfjatyggigúmmí getur þú fundið fyrir lasleika, svima og vanlíðan. Hættu notkun og ráðfærðu þig tafarlaust við lækni. Einkenni ofskömmtunar eru fölvi, aukin svitamyndun, aukin munnvatnsmyndun, sundl, sviðatilfinning í koki, ógleði, uppköst, niðurgangur, kviðverkir, truflanir á heyrn og sjón, höfuðverkur, mæði, rugl og þróttleysi.

Ef um er að ræða mjög stóra skammta getur komið fram örmögnun, lágþrýstingur, blóðrásarbilun, mæði og banvænir krampar.

Ef grunur leikur á eitrun hjá barni skal hafa strax samband við lækni. Lítið magn af nikótíni er hættulegt og hugsanlega lífshættulegt börnum og getur valdið alvarlegum einkennum eða dauða.

Ef gleymist að nota Nicotinell Lakrids

Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að nota. Haltu áfram með venjulegan skammt.

Ef hætt er að nota Nicotinell Lakrids

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

Fyrirvari

Hugsanlegar aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.

Fylgiseðillinn kann að hafa verið uppfærður eftir að upplýsingarnar að ofan voru teknar saman. Í þeim tilfellum sem upplýsingarnar stangast á skal fara eftir því sem fram kemur í fylgiseðli.

Pakkningar og verð