Paratabs

Filmuhúðuð tafla | 500 mg

Virk innihaldsefni:

Íkomuleið:

Til inntöku

Flokkur:

Lyf fyrir menn

ATC-flokkur:

N02BE01 - Paracetamolum

Markaðsleyfishafi:

Teva B.V.

Umboðsmaður:

Teva Pharma Iceland ehf.

Heildsala:

Distica hf.

Heimilt er að selja takmarkað magn lyfsins í lausasölu sbr. pakkningar merktar L. Mest 30 stk. handa einstaklingi.

Upplýsingar um Paratabs og við hverju það er notað

Paratabs inniheldur parasetamól sem tilheyrir flokki lyfja sem kallast verkjalyf. Paratabs er notað gegn vægum til miðlungi miklum verkjum og til að lækka hita.
Paratabs má nota gegn höfuðverk, tannpínu, tíðaverkjum, vöðvaverk og hita í tengslum við kvef.

Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknis og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Ekki má nota Paratabs ef um er að ræða ofnæmi fyrir parasetamóli eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins.

Paratabs skal ekki nota samhliða áfengi, þar sem það getur valdið alvarlegum lifrarskemmdum. Áhrif áfengis aukast ekki við töku parasetamóls.

Leitið ráða hjá lækninum áður en Paratabs er notað:

  • ef þú ert með nýrna- eða lifrarsjúkdóm (þ.m.t. Gilberts heilkenni eða lifrarbólgu)
  • ef þú neytir reglulega mikils magns af áfengi. Þú gætir þurft lægri skammta og að takmarka notkunina við stuttan tíma, annars gæti lifrin orðið fyrir áhrifum
  • ef þig skortir vökva eða ert vannærð/ur t.d. vegna ofnotkunar áfengis, lystarleysis eða rangrar næringar
  • ef þú ert með rauðalosblóðleysi (óeðlilegt niðurbrot rauðra blóðkorna)
  • ef þig skortir ákveðið ensím sem kallast glúkósa-6-fosfatdehýdrógenasi
  • ef þú notar önnur lyf sem vitað er að hafa áhrif á lifrina
  • ef þú notar önnur lyf sem innihalda parasetamól, þar sem það getur valdið alvarlegum lifrarskemmdum
  • ef þú notar oft verkjalyf í langan tíma, þar sem langvarandi notkun getur valdið alvarlegri og tíðari höfuðverkjum. Þú skal ekki auka skammtinn af verkjalyfinu, en þú ættir að ráðfæra þig við lækni
  • ef þú ert með astma og ert næm/næmur fyrir acetýlsalicýlsýru
  • ef þú ert með alvarlega sýkingu, s.s. blóðsýkingu, þar sem hún getur aukið hættuna á svokallaðri efnaskiptablóðsýringu. Einkenni efnaskiptablóðsýringar eru m.a.: djúpur, hraður, erfiður andardráttur; ógleði, uppköst; lystarleysi. Hafðu tafarlaust samband við lækni ef þú færð einhver þessara einkenna samtímis

Varnaðarorð: Inntaka hærri skammta en ráðlagðir eru felur í sér hættu á alvarlegum lifrarskemmdum.
Því má ekki taka meira af parasetamóli en ráðlagðan hámarksdagsskammt. Einnig skal gæta varúðar við samhliða notkun annarra lyfja sem einnig innihalda parasetamól. Sjá einnig „Ef tekinn er stærri skammtur af Paratabs en mælt er fyrir um“.

Ef hár hiti eða einkenni sýkingar eru enn til staðar eftir meðferð í meira en 3 daga, eða ef verkur er enn til staðar eftir meðferð í meira en 5 daga, skalt þú leita til læknis.

Notkun annarra lyfja samhliða Paratabs

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef um er að ræða:

  • klóramfenikól (gegn sýkingum), þar sem Paratabs getur tafið losun þess úr líkamanum
  • metóklópramíð eða domperidón (gegn ógleði og uppköstum) þar sem það getur hraðað virkni Paratabs
  • kólestýramín (til að lækka kólesteról) og lyf sem hægja á magatæmingu, þar sem þau geta dregið úr áhrifum Paratabs
  • próbenecíð (gegn t.d. þvagsýrugigt). Þú gætir þurft lægri skammta af Paratabs
  • segavarnarlyf (lyf sem þynna blóðið, t.d. warfarín), ef þú þarft að taka Paratabs daglega í langan tíma
  • salicýlamíð (gegn hita eða vægum verkjum), þar sem það getur tafið losun Paratabs úr líkamanum
  • lamótrigín (gegn flogaveiki), þar sem Paratabs getur dregið úr verkun þess
  • Lyf sem hugsanlega valda lifrarskemmdum svo sem;
    - barbitúröt eða karbamazepín (gegn geðrænum kvillum og flogaveiki)
    - rífampicín (gegn bakteríusýkingum)
    - ísóníazíð (gegn berklum)
    - fenýtóín (gegn flogaveiki)
    - jóhannesarjurt (Hypericum perforatum) (gegn þunglyndi)
  • flucloxacillín (sýklalyf), vegna mikillar hættu á afbrigðileika í blóði og blóðvökva (blóðsýringu með miklum anjónamun (high anion gap metabolic acidosis)) sem krefst bráðameðferðar og getur sérstaklega komið fram ef nýrnastarfsemi er verulega skert, við sýklasótt (þegar bakteríur og eiturefni þeirra eru í blóðrásinni sem leiðir til líffæraskaða), vannæringu, langvinna drykkjusýki og ef notaðir eru hámarksdagskammtar af parasetamóli

Paratabs getur haft áhrif á niðurstöður sumra rannsókna, svo sem prófa fyrir þvagsýru og blóðsykri.

Notkun Paratabs með áfengi

Forðast skal samhliða notkun Paratabs og áfengis.

Meðganga og brjóstagjöf

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

  • Meðganga: Paratabs má nota á meðgöngu ef nauðsyn krefur. Þú skalt nota minnsta mögulegan skammt til að draga úr verkjum og/eða hita í eins stuttan tíma og hægt er. Hafðu samband við lækninn ef ekki dregur úr verknum og/eða hitanum eða ef þú þarft að taka lyfið oftar
  • Brjóstagjöf: Nota má Paratabs í ráðlögðum skömmtum samhliða brjóstagjöf

Akstur og notkun véla

Parasetamól hefur ekki áhrif á hæfni þína til aksturs eða stjórnunar véla.

Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í öðrum köflum fylgiseðilsins. Lesið því allan fylgiseðilinn. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.

Hvernig nota á Paratabs

Töfluna skal gleypa með glasi af vatni.

Ráðlagður skammtur

Alltaf skal nota lyfið nákvæmlega eins og lýst er í fylgiseðli eða eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur mælt fyrir um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Ekki taka meira en ráðlagðan skammt. Athugið að hærri skammtar en ráðlagðir eru geta valdið mjög alvarlegum lifrarskemmdum.

Skammta hjá börnum og unglingum skal miða við líkamsþyngd og viðeigandi lyfjaform notað.
Upplýsingar um aldur barna innan hvers þyngdarflokks eru aðeins leiðbeinandi.

  • Fullorðnir og unglingar sem eru 50 kg eða þyngri: Venjulegur skammtur er 1 til 2 töflur (500 mg til 1.000 mg) á 4 til 6 klst. fresti eftir þörfum, að hámarki 6 töflur (3 g) á dag
  • Börn og unglingar sem eru 43-50 kg (um 12-15 ára): Venjulegur skammtur er 1 tafla (500 mg) á 4 klst. fresti eftir þörfum, að hámarki 5 töflur (2,5 g) á dag
  • Börn sem eru 34-43 kg (um 11-12 ára): Venjulegur skammtur er 1 tafla (500 mg) á 6 klst. fresti eftir þörfum, að hámarki 4 töflur (2 g) á dag
  • Börn sem eru 26-34 kg (um 8-11 ára): Venjulegur skammtur er ½ tafla (250 mg) á 4 klst. fresti eða 1 tafla (500 mg) á 6 klst. fresti eftir þörfum, að hámarki 3 töflur (1,5 g) á dag
  • Paratabs 500 mg er ekki ætlað börnum undir 26 kg

Ef hár hiti eða einkenni sýkingar eru enn til staðar eftir meðferð í meira en 3 daga, eða ef verkur er enn til staðar eftir meðferð í meira en 5 daga skalt þú leita til læknis.

  • Sjúklingar með skerta nýrna- eða lifrarstarfsemi: Lækka þarf skammta eða lengja tímann á milli þeirra hjá sjúklingum með skerta nýrna- eða lifrarstarfsemi og sjúklingum með Gilberts heilkenni. Hjá sjúklingum með alvarlega skerðingu á nýrnastarfsemi þurfa að líða minnst 8 klst. á milli skammta af Paratabs. Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi
  • Aldraðir sjúklingar: Skammtaaðlögun er ekki nauðsynleg hjá öldruðum
  • Sjúklingar með langvinna áfengissýki: Langvinn áfengisneysla getur aukið hættu á eiturverkunum af völdum parasetamóls. Minnst 8 klst. skulu líða á milli tveggja skammta. Ekki taka meira en 2 g af parasetamóli á dag

Ef tekinn er stærri skammtur af Paratabs en mælt er fyrir um

Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið notaður, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543-2222).

Leita skal læknis án tafar ef of stór skammtur hefur verið tekinn, jafnvel þó þér líði vel, vegna hættu á síðbúnum alvarlegum lifrarskemmdum. Til að forðast hugsanlegar lifrarskemmdir er mikilvægt að læknir gefi móteitur eins fljótt og unnt er. Einkenni lifrarskemmda koma yfirleitt ekki fram fyrr en eftir nokkra daga. Einkenni ofskömmtunar geta verið m.a. ógleði, uppköst, lystarleysi, fölvi og kviðverkur, en þessi einkenni koma yfirleitt fram innan 24 klst. frá inntöku.

Fyrirvari

Hugsanlegar aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.

Fylgiseðillinn kann að hafa verið uppfærður eftir að upplýsingarnar að ofan voru teknar saman. Í þeim tilfellum sem upplýsingarnar stangast á skal fara eftir því sem fram kemur í fylgiseðli.

Pakkningar og verð