Zaditen
Virk innihaldsefni:
Íkomuleið:
Til notkunar í auga
Flokkur:
Lyf fyrir menn
ATC-flokkur:
Markaðsleyfishafi:
Heildsala:
Distica hf.
Upplýsingar um Zaditen og við hverju það er notað
Zaditen inniheldur virka efnið ketotifen, sem er lyf við ofnæmi. Zaditen er notað til meðferðar við einkennum frjókornaofnæmis í augum.
Leitið til læknis ef sjúkdómseinkenni versna eða lagast ekki.
Varnaðarorð og varúðarreglur
Ekki má nota Zaditen
- ef um er að ræða ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins
Notkun annarra lyfja samhliða Zaditen
Ef þú þarft að nota einhver önnur lyf í augun ásamt Zaditen, skaltu láta líða a.m.k. 5 mínútur á milli þess sem þú notar lyfin.
Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef þú notar lyf við:
- þunglyndi, kvíða og svefnvandamálum
- ofnæmi (t.d. andhistamín)
Notkun Zaditen með mat, drykk eða áfengi
Zaditen getur aukið áhrif áfengis
Meðganga og brjóstagjöf
Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað. Nota má Zaditen meðan á brjóstagjöf stendur.
Akstur og notkun véla
Zaditen getur valdið þokusýn eða syfju. Ef þú finnur fyrir þessu skaltu bíða þar til ástandið hefur lagast áður en þú ekur bíl eða notar vélar.
Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í öðrum köflum fylgiseðilsins. Lesið því allan fylgiseðilinn. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.
Verið getur að læknirinn hafi ávísað lyfinu við öðrum sjúkdómi eða í öðrum skömmtum en tiltekið er í þessum fylgiseðli. Ávallt skal fylgja fyrirmælum læknis og leiðbeiningum á merkimiða frá lyfjabúð.
Hvernig nota á Zaditen
Alltaf skal nota lyfið nákvæmlega eins og lýst er í fylgiseðli eða eins og læknirinn, lyfjafræðingur eða hjúkrunarfræðingurinn hefur mælt fyrir um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum, lyfjafræðingi eða hjúkrunarfræðingnum.
Venjulegur skammtur fyrir fullorðna, aldraða og börn 3 ára og eldri er 1 dropi í viðkomandi auga (augu) tvisvar sinnum á dag (að morgni og að kvöldi).
Eitt stakskammtaílát inniheldur nægilegt magn af lausn til að meðhöndla bæði augun einu sinni.
Notkunarleiðbeiningar
- Þvoðu þér um hendurnar
- Opnaðu þynnupakkninguna/pokann og dragðu út lengju af stakskammtaílátum
- Rífðu eitt stakskammtaílát af lengjunni
- Settu stakskammtaílátin sem eftir eru aftur í þynnuna/pokann og lokaðu með því að brjóta endann saman. Settu þynnupakkninguna/pokann aftur í öskjuna.
- Opnaðu stakskammtaílátið með því að snúa hettuna af því. Ekki snerta oddinn eftir að þú hefur opnað ílátið
- Hallaðu höfðinu aftur
- Dragðu neðra augnlokið niður með einum fingri og haltu á ílátinu með hinni hendinni. Kreistu ílátið þannig að einn dropi falli í augað
- Lokaðu auganu og þrýstu með fingurgómnum á innri augnkrókinn í um 1-2 mínútur. Þetta kemur í veg fyrir að augndropinn fari um táragöngin niður í hálsinn. Þess í stað helst meirihluti dropans í auganu. Endurtaktu skref 6 til 8 fyrir hitt augað, ef við á
- Fleygið ílátinu eftir notkun
Leitið til læknis, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.
Ef notaður er stærri skammtur en mælt er fyrir um
Engin hætta fylgir því ef þú hefur fyrir slysni tekið Zaditen inn um munn eða ef þú hefur notað meira en einn dropa í augað. Ef þú ert í vafa skaltu leita ráða hjá lækninum.
Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið notaður, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222).
Ef gleymist að nota Zaditen
Ef þú gleymir að nota Zaditen skaltu nota það um leið og þú manst eftir því. Haltu síðan áfram að nota það eins og venjulega. Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að nota.
Fyrirvari
Hugsanlegar aukaverkanir má finna í fylgiseðli lyfsins.
Fylgiseðillinn kann að hafa verið uppfærður eftir að upplýsingarnar að ofan voru teknar saman. Í þeim tilfellum sem upplýsingarnar stangast á skal fara eftir því sem fram kemur í fylgiseðli.